Gangverð

Jólaskreytingakeppnin 2013

Í gær þann 11. desember réðust úrslit í jólakreytingarkeppni starfsmanna Gangverðs sem nú var haldin í fyrsta sinn. Stjórn félagsins gegndi hlutverki dómnefndar og dró sig í hlé að loknum stjórnarfundi til þess að ráða ráðum sínum. Höfðu viðstaddir stjórnarmenn áður fengið ráðrúm til að greina skreytingarnar ítarlega, en fjarstaddir glöggvuðu sig á þeim með hjálp myndfjarskiptatækni. Þegar upp var staðið reyndist Stefanía Sch. Thorsteinsson hafa skotið félögum sínum ref fyrir rass í þessari keppnisgrein og fagnaði hún sigrinum með áköfum en þó settlegum hætti. Þegar Egill Másson, stjórnarformaður og formaður dómnefndar, gerði grein fyrir valinu sagði hann m.a. “Skreyting Stefaníu er í senn hátíðleg og lífleg og nýtir rýmið vel án þess að skapa umtalsverða slysahættu eða trufla dagleg störf.” Á myndinni má sjá Stefaníu hampa veglegum bikar með áletruninni “Flottasti básinn!” á meðan samstarfsmenn hennar gera sitt besta til að leyna vonbrigðum sínum með misjöfnum árangri.

Um er að ræða farandbikar og má vænta þess að aðrir starfsmenn sýni karakter og komi sterkir inn á næsta ári með vaxandi keppnisreynslu. Önnur verðlaun runnu til Kjartans Traustasonar fyrir mínimaliska skreytingu með svínsþema og sérhönnuðu niðurtalningarforriti á skjá en einnig veitti dómnefnd að þessu sinni sérstök verðlaun fyrir rapsódíu Skeggja G.

Nýsköpunarsjóður kaupir hlut í Gangverði

Skrifað hefur verið undir samning um kaup Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (www.nsa.is) á hlutafé í Gangverði.

Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins sagði að því tilefni: “Miklar sviptingar í fjármálaheimi á síðustu árum færa heim sanninn um þörfina á betri verkfærum til verðmats eignasafna á fjármálamarkaði. Hjá Gangverði fer saman ný og áhugaverð tækni og frumkvöðull með mikla reynslu úr áhættustýringu og hlökkum til að taka þátt í því að gera góða hugmynd að veruleika.“

Sigurður Ingólfsson

Gangverð flytur… en ekki langt!

Gangverð flutti höfuðstöðvar sínar í tvöfalt stærra húsnæði í nokkrum áföngum síðla maímánaðar samfara því að þrír nýir starfsmenn voru ráðnir til fyrirtækisins. Flutningurinn átti sér stað að mestu leyti innanhúss þar sem fyrra húsnæði var staðsett að Sundaborg 3 en hinar nýju höfuðstöðvar í Sundaborg 9 og innangengt er á milli. Við flutningana batnaði aðstaða starfsmanna að mörgu leyti og án þess að kosta þyrfti til hinni fögru sýn yfir Vöruhótelið til Viðeyjar og út á sundin blá.

Sérstaklega er til þess tekið að aðstöðu til íþróttaiðkana hefur farið fram í nýju rými með tilkomu fússballborðsins.