Gangverð

Um fyrirtækið

Gangverð þróar hagnýt tölfræðilíkön sem nýtast á sviði fjármála, markaðsviðskipta og hagfræðilegrar greiningar. Slík líkön, sem vinna úr raunupplýsingum með skilvirkustu aðferðum tímaraðagreiningar, geta dregið umtalsvert úr verðóvissu og jafnað upplýsingastöðu milli aðila í viðskiptum. Þar með stuðla þau að heilbrigðum viðskiptaháttum, draga úr áhættu og minnka viðskiptakostnað.

Notagildi óháðra og hlutlægra verðupplýsinga í eignaviðskiptum er margháttað. Verðmætar eignir skipta iðulega um hendur milli aðila sem ekki hafa fulla yfirsýn yfir það verð sem greitt hefur verið fyrir aðrar sambærilegar eignir nýlega. Tölfræðileg eignaverðslíkön sem byggja á sífelldu streymi raunupplýsinga draga saman allar þær upplýsingar sem fyrir liggja um viðkomandi eign á hnitmiðaðan hátt.

Mat Gangverðs á verðgildi eigna er fyllilega hlutlægt að því leyti að það byggir eingöngu á söluverði og skráðum eiginleikum eigna sem áður hafa selst. Þetta gerir mögulegt að koma við síendurteknu mati með skömmu millibili og auðveldar þannig eftirfylgni stærri eignasafna og gerir ítarlegri greiningu þeirra mögulega en ella væri, t.d. með tilliti til innbyrðis fylgni og verðbreytileika. Þetta tvennt getur skapað áhættu, t.d. í söfnum lána gegn veði eða í tengslum við ákvörðun tryggingariðgjalda.